Ásta Dís Óladóttir er prófessor í stjórnun og alþjóðaviðskiptum við Háskóla Íslands með áratugareynslu af stjórnunar- og stefnumótunarstörfum í íslensku atvinnulífi. Hún lauk doktorsprófi frá Copenhagen Business School árið 2010 og hefur síðan þá sameinað fræðistörf og víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, bæði hér heima og erlendis.
Ásta Dís hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja og stofnana, þar á meðal Samkeppniseftirlitsins, Byggðastofnunar, Nýsköpunarsjóðsins Kríu, Frumtaks, sprotafyrirtækja, fjármála- og vátryggingafyrirtækja. Þá hefur hún setið í fjölmörgum endurskoðunar- og starfskjaranefndum.
Hún er formaður Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands, Vísindasjóðs Háskólans á Akureyri og Jafnvægisvogarinnar, auk þess að sitja í stjórn Samherja. Hún er stofnandi Rannsóknaseturs um jafnrétti í efnahags- og atvinnulífi við Háskóla Íslands og situr í stjórn setursins.