
Sweeply gerði á dögunum samstarfssamning við Leonardo Hotels, eina af stærstu hótelkeðjum í Evrópu. Sweeply þróar lausnir fyrir rekstur hótela og hefur fyrirtækið undanfarið vaxið hratt á erlendum mörkuðum.
Í dag eru 40% af tekjum félagsins frá erlendum hótelum en lausn Sweeply er notuð af 250 hótelum í 26 löndum.
„Það er ánægjulegt að sjá íslenskt hugvit ná svona sterkri fótfestu erlendis. Við erum að móta hvernig rekstur framtíðarhótela verður unninn og samstarfið við Leonardo Hotels er stór áfangi í þeirri vegferð,“ segir Þórhildur Edda Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Sweeply.
Fyrirtækið segist einnig vera að endurhugsa hvernig hótel eru rekin með því að nýta gervigreind til að tengja saman ferli sem hafa hingað til verið sundurlaus.
Sweeply mun á þessu ári kynna nýjar lausnir þar sem þrif, viðhald, gestabeiðnir og mannaflaþörf renna saman. Gervigreind Sweeply mun þá greina stöðuna í rauntíma, leggja til forgangsröðun, samhæfa verkefni milli teyma og draga úr handvirkri vinnu.
„Hótelrekstur snýst um að halda utan um ótal hluti í einu og þegar það tekst vel þá finnur gesturinn fyrir því. Við viljum hjálpa hótelum að auka sjálfvirkni og draga úr handvirkri vinnu sem er tímafrek og skilar litlu virði þannig að starfsfólk geti varið meiri tíma í það sem skiptir mestu máli sem eru gestirnir,“ segir Þórhildur.
Sweeply var stofnað árið 2019 og kom inn í eignasafn Nýsköpunarsjóðsins Kríu árið 2020.