
Friðrik Friðriksson, fjármálastjóri Nýsköpunarsjóðsins Kríu, hætti störfum hjá sjóðnum nýverið sökum aldurs. Hann hafði starfað hjá sjóðnum síðan árið 2017 þar sem aðalstarfið var umsýsla með félögum í eignasafni. Friðrik segir að hann hafi mest nýtt reynsluna af því að vinna að endurbótum í rekstri í starfi sínu. Það séu sömu prinsippin óháð stærð og þroska fyrirtækjanna.
Flest af því sem Friðrik hefur unnið að snýr að nýsköpun með einum eða öðrum hætti. Að koma fyrirtækjum á lappirnar og fylgja þeim eftir er leiðarstefið. Áður en Friðrik kom í Nýsköpunarsjóðinn var hann framkvæmdastjóri Skjásins/SkjárEinn, sem var dótturfélag Símans sem rann svo inn í Símann og lagði grunninn að Sjónvarpi Símans.
Friðrik er alæta á íþróttir en sjálfur syndir hann, er á skíðum, í veiði og golfi en hann les líka mikið og hefur gaman af skák. Það er því ljóst að hann mun hafa nóg fyrir stafni. Hann segir að ganga og skíðaganga í náttúrunni toppi flest en honum leiðist mest hægur leikhraði í golfi.
Friðrik segir að þó hann sé hættur núna hjá Nýsköpunarsjóðnum þá er hann alls ekki hættur störfum. Hann mun áfram vinna við rekstrarráðgjöf sem hann þekkir vel en lætur framhaldið ráðast af aðstæðum og áhuga sínum. „Við sjáum til hvernig þetta spilast,“ bætir hann við sem sýnir enn fremur íþróttaáhuga hans en áhugaverð staðreynd er að Friðrik var landsliðsmaður í handbolta og markakóngur í efstu deild. Mottó-ið hans er einmitt að gera það vel sem maður tekur að sér, það sé miklu betra og tekur jafn langan tíma.
Við hjá Nýsköpunarsjóðnum Kríu þökkum Friðriki fyrir öll hans vel unnu störf og munum sakna þessa mikla dáðadrengs og íþróttakappa. Við hlökkum til að fylgjast áfram með honum í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur í framtíðinni.