
Íslenska máltæknifyrirtækið Bara tala hefur nú formlega kynnt til leiks norska útgáfu lausnarinnar undir heitinu Bare si det. Opnunarviðburðurinn fór fram í Noregi þann 20. október í tengslum við Oslo Innovation Week og var haldinn í sendiherrabústað Íslands í Osló.
Jón Gunnar Þórðarson, stofnandi og framkvæmdastjóri Bara tala kynnti þar tilurð og framtíðarsýn lausnarinnar Bare si det og sagði frá fyrstu skrefunum í Noregi sem hafa gengið vonum framar.
Jón Gunnar:
„Við erum ótrúlega stolt af því að stíga þetta skref að opna Bare si det og vonumst til að geta stutt við nýbúa og fyrirtæki í Noregi með notendavænu og starfstengdu tungumálanámi“
Hann bætti því við að frábærir samstarfsfélagar í Osló séu komnir um borð í verkefnið en ráðgjafafyrirtækið FOLKA AS, sem sérhæfir sig í lausnum í mannauðsmálum til fyrirtækja, verða endursöluaðilar á lausninni Bare si det fyrir Noregsmarkað. Jón greindi einnig frá því að Bara tala ehf réði nýlega markaðs- og sölustjóra í Noregi. Marcus Øien, sem starfaði áður sem sölu- og markaðsstjóri hjá Capeesh, fyrirtæki sem sérhæfði sig í menntatæknilausnum fyrir vinnumarkaðinn tekur við stöðunni.
Að auki var tilkynnt um nýtt samstarf milli Bare si det og norska landsliðsins í krikket. Firmamerki Bare si det mun nú prýða keppnisbúninga bæði kvenna- og karlalandsliðsins í Noregi.
„Við erum gríðarlega stolt af þessu samstarfi en landsliðin samanstanda að stórum hluta af innflytjendum frá löndum eins og Indlandi, Pakistan, Sri Lanka, Bangladesh, Suður-Afríku og Ástralíu og við sjáum þetta sem sterka yfirlýsingu um mikilvægi tungumáls sem brúar milli menningarheima.“
Bare si det byggir á sama grunni og íslenska útgáfan Bara tala, sem hefur reynst árangursrík meðal fjölmargra fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga á Íslandi. Lausnin styður við íslenskunám fólks með annað móðurmál en íslensku og stuðlar markvisst að aukinni þátttöku þeirra í samfélaginu, auknu sjálfstraust og aðgengi að vinnumarkaði.
Bara Tala var stofnað árið 2023 og kom inn í eignasafn Nýsköpunarsjóðsins Kríu árið 2024.
Nánar má lesa um boðið á mbl.is