6
.
May
2021

Viðburðarríkt ár að baki

Ársfundur Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins fór fram 6. maí 2021

Ársfundur Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins fór fram í fimmtudaginn 6. maí. Líkt og á síðasta ári var fundinum streymt í gegnum vefstreymi.

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs, rakti starfsemi sjóðsins á árinu 2020. Sjóðurinn fjárfesti á árinu í tveimur nýjum félögum, Pay Analytics og Tyme Wear og seldi að fullu hluti sína í fyrirtækjunum Sólfar (Mainframe) og Atmo Select. Í lok árs 2020 voru hlutir í 22 fyrirtækjum í eignasafni sjóðsins auk þess sem sjóðurinn á eignahluti í þremur öðrum sjóðum. Þá hélt Nýsköpunarsjóður áfram að styðja við núverandi eignasafn á árinu og tók þátt í fjármögnun, meðal annars hlutafjáraukningu og lánveitingum, til fyrirtækjanna Lauf Forks, Kaptio, Florealis, Dohop, Ankeri og Cooori.

Hagnaður ársins 2020 nam 30 m.kr. samanborið við 41 m.kr. á árinu 2019. Á árinu var tekjufærð áður færð varúðarniðurfærsla að fjárhæð 300 m.kr. Rekstrargjöld sjóðsins breytast lítið á milli ára og námu 132 m.kr. árið 2020 samanborið við 129 m.kr. árið 2019.

Umsjón með Stuðnings-Kríu var umsvifamikið verkefni hjá Nýsköpunarsjóði á árinu, en í kjölfar Covid-19 faraldursins var gerður samningur á milli sjóðsins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um mótframlagslán. Tilgangur mótframlagslána var að styðja við lífvænleg sprota- og nýsköpunarfyrirtæki vegna þeirra erfiðu aðstæðna sem Covid-19 faraldurinn hefur ollið.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, flutti opnunarávarp og  þakkaði starfsmönnum og stjórn Nýsköpunarsjóðs  fyrir farsælt samstarf á árinu.

Í ávarpi sínu sagði Þórdís Kolbrún sjóðurinn geti gegnt stærra hlutverki í nýsköpunarumhverfinu á Íslandi en hann hefur gert til þessa. Hún sagði að stuðningsumhverfi nýsköpunar þyrfti að breytast í samræmi við fjölbreytt atvinnulíf og að fjármögnun fyrirtækja geti farið fram með mismunandi hætti. Þá sagði hún að einkafjárfestar væru tilbúnari nú en áður til að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum og að stjórnvöld þyrftu að huga að því hvernig best væri að styðja við að umhverfi.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og stjórnarformaður Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sagði í ávarpi sínu að minnast megi ársins 2020 sem árs nýsköpunar – árs hugverkaiðnaðar á Íslandi. Hann sagði að umbætur stjórnvalda undanfarinn áratug í þágu nýsköpunar, þar sem stærstu skrefin voru stigin árið 2020, sem og hugmyndaauðgi og drifkraftur frumkvöðla, hafi gert það að verkum að hugverkaiðnaður er nú ein af útflutningsstoðum íslensks hagkerfis. Hann sagði jafnframt að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefði mikilvægu hlutverki að gegna. Sjóðurinn væri sá eini sem er sígrænn og leitar því alltaf fjárfestingarkosta. Hann hafi þannig stutt við nýsköpunarsprota sem margir hafa orðið að myndarlegum fyrirtækjum, með fjölda starfsmanna og útflutningstekjur.

Á fundinum vék Kristján Þórður Snæbjarnarson úr stjórn sjóðsins en í hans stað kemur Róbert Eric Farestveit. Aðrir í stjórn eru Arnbjörg Sveinsdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Heiðrún Lind Marteinsdóttir og Sigurður Hannesson.

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.