31
.
October
2025

Velheppnað Nýsköpunarþing

Skipulagsnefnd Nýsköpunarþingsins 2025, ásamt Frey Eyjólfssyni, Hrönn Greipsdóttir, Eiríkur Sigurðsson, Davíð Fjölnir Ármannson, Laila Sæunn Pétursdóttir, Erna Björnsdóttir og Eva Einarsdóttir

Í gær, fimmtudaginn 30. október, stóð Nýsköpunarsjóðurinn Kría, Íslandsstofa, Hugverkastofan og Rannís fyrir Nýsköpunarþingi sem var vel sótt og að auki sent út í streymi.

Umræðuefnið var hvað Ísland hefur fram að færa í nýsköpun á alþjóðlegum markaði og hvernig óvæntar vendingar í alþjóðamálum geta haft áhrif á sókn íslenskra nýsköpunarfyrirtækja erlendis.

Hrönn Greipsdóttir, forstjóri Nýsköpunarsjóðsins Kríu, bauð alla gesti velkomna, fól svo Frey Eyjólfssyni fundarstjórn og stýrði hann þinginu af sinni einskæru snilld. Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, setti Nýsköpunarþing Íslands 2025 og ræddi meðal annars um árangur Íslands á alþjóðavettvangi.

Svanhildur Hólm, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, var aðalfyrirlesari þingsins, og fór hún yfir mikilvægi Bandaríkjanna sem viðskiptalands og svo sérstaklega tollamálin sem hafa verið brennidepli í alþjóðamálum. Hún fór einnig yfir ímynd Ísland og hvað skiptir máli þegar íslensk fyrirtæki eru að huga að því að markaðssetja sig í Bandaríkjunum og víðar.

Að því loknu fór Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar, yfir nýútkomna skýrslu um einkaleyfisumsóknir íslenskra og norrænna fyrirtækja síðastliðin 20 ár en þar kemur m.a. fram að Ísland rekur lestina á Norðurlöndunum hvað varðar fjölda einkaleyfisumsókna miðað við mannfjölda.  

Fjármála og efnahagsráðherra afhenti nýsköpunarfyrirtækinu Hefring Marine Nýsköpunarverðlaun Íslands 2025.  Sýnt var kynningarmyndband um Hefring Marine og svo tóku þeir Karl Birgir Björnsson, Magnús Þór Jónsson og Björn Jónsson, stofnendur Hefring Marine við verðlaunagripnum.  Verðlaunagripurinn er stytta af frjósemisgoðinu Frey eftir mynhöggvarann Hallstein Sigurðsson.

Í lok þingsins voru pallborðsumræður þar sem Svanhildur Hólm, Tanya Zarov, aðstoðarforstjóri Alvotech, Erla Skúladóttir, stjórnarformaður Lauf Cycles, Sveinn Sölvason,  forstjóri og framkvæmdastjóri Embla Medical og Lóa Fatou Einarsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Good Good ræddu við Frey um aðstæður á erlendum mörkuðum og framtíðina.

Að lokinni dagskrá var boðið upp á léttar veitingar.

Hér má sjá myndir frá Nýsköpunarþingi 2025 sem ljósmyndarinn Sigurjón Ragnar tók.

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.