3
.
May
2023

Fjárfesting á sprotafyrirtækjum, sem komin eru stutt á veg í sinni þróun

Nýsköpunarsjóður stendur nú fyrir átaki í fjárfestingu í sprotafyrirtækjum sem komin eru stutt á veg í sinni þróun. Markmið þessa fjárfestingaátaks er að koma að fjármögnun allt að 15 nýrra félaga á ári hverju, flýta mótunarskeiði þeirra, þróa  trausta stjórnarhætti, og laða samhliða að aðra fjárfesta.

Hlutverk Nýsköpunarsjóðs er að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með fjárfestingum í sprotum og styðja við framgang nýsköpunar í samræmi við áherslur stjórnvalda.

Í stefnumótunarvinnu Nýsköpunarsjóðs haustið 2022 var lagt var mat á fjármögnunarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja og með hvaða hætti Nýsköpunarsjóður gæti orðið enn sterkara hreyfiafl fyrir nýsköpun á Íslandi. Sjóðurinn leggur áherslu á að fjárfesta í félögum snemma í þróunarferli þeirra og þar sem markaðsbrestur kallar eftir aðkomu sjóðsins.  Sjóðurinn er þannig ekki í samkeppni við aðra fjárfesta heldur stuðlar að því að brúa bil sprotafyrirtækja og fjárfesta.

Umgjörð átaksins  

Stefnt er að því að sjóðurinn fjárfesti fyrir allt að 200 m.kr. á ári með þessum hætti næstu árin. Fjármögnun átaksins byggir á eigin fjármögnun sjóðsins sem er sígrænn og framlagið því háð stöðu hans á hverjum tíma.

Fyrsti áfanginn í þessu átaki kemur til framkvæmda á nú í maí og júní með allt að 100 m.kr. fjárfestingu í nokkrum félögum. Fjárfest verður snemma í félögum, með einföldum hætti en eitt skilyrðanna er mótframlag hluthafa eða nýrra fjárfesta.  

Það er skilyrði fyrir fjárfestingu að viðskiptahugmynd félags sé vænleg til vaxtar og útflutnings og byggi á tæknilegri eða markaðslegri nýsköpun. Þá er það til framdráttar að lykilteymi félagsins skipi fjölbreyttur hópur með bakgrunn, reynslu og þekkingu sem nýtist vel við framgang félagsins.

Fjárfesting sjóðsins í einstökum félögum verður á bilinu 5 – 25 m.kr., en gerð verður krafa um samsvarandi upphæð frá einkafjárfestum. Hægt verður að velja um tvær leiðir við framkvæmd fjárfestingarinnar, þ.e. með láni með breytirétti í hlutafé eða framvirkum samningi um kaup á hlutafé í anda SAFE samninga.

Nánari upplýsingar og umsóknir    

Ólíkt hefðbundnum fjárfestingum Nýsköpunarsjóðs verður í þessu átaki sérstakt umsóknarferli og þurfa félög að sækja um í þessum fyrsta áfanga fyrir 31. maí n.k.  Allar nánari upplýsingar um átakið og umsóknarferlið má finna á heimasíðu Nýsköpunarsjóðs www.nyskopun.is/atak.

Fram undan eru nokkrir kynningarfundir um þetta átak og verður sá fyrsti í Fjártækniklasanum í Grósku kl. 10, fimmtudaginn 4. maí.  Hlekk á viðburðinn má finna hér.

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.