24
.
September
2025

Tulipop tilnefnt til Venice TV Awards

Helga Árnadóttir og Signý Kolbeinsdóttir. Mynd frá mbl.is/Árni Sæberg

Teiknimyndaþáttaröðin Ævintýri Tulipop hlaut tilnefningu til Venice TV Awards sem veitt eru í Feneyjum. Þættirnir voru tilnefndir í flokki framúrskarandi teiknimyndaefni ársins en aðrar þáttaraðir sem hlutu tilnefningu eru The Smurfs Season 3, Odo, Very Small Creatures og Luka and the Flower of the Sun sem hlaut verðlaunin að þessu sinni.

Ævintýri Tulipop er 52 þátta teiknimyndaþáttaröð sem byggir á íslenska hugverkinu Tulipop og notið hefur mikilla vinsælda hér á landi sem og erlendis. Allir þættirnir eru nú aðgengilegir í Sjónvarpi Símans Premium auk þess sem fyrstu 13 þættirnir eru í sýningu á RÚV.

Alþjóðlegt samstarf og framleiðsla

Yfir 100 manns á Íslandi, Spáni og Ítalíu komu að framleiðslu þáttaraðarinnar. Hún var framleidd í nánu samstarfi við Símann og naut stuðnings Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, Nordisk Film & TV Fond og endurgreiðslu menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins.

Þáttaröðin hefur þegar verið seld til yfir 30 landa utan Íslands, þar á meðal Noregs, Finnlands, Frakklands, Ítalíu, Bretlands, Mið-Austurlanda og Kanada.

Frábær viðurkenning

„Það er frábær viðurkenning að Ævintýri Tulipop skuli hljóta þessa tilnefningu. Hún staðfestir gæði þáttanna sem hafa slegið í gegn meðal barna og fjölskyldna. Það er mikil þörf fyrir íslenskt barnaefni sem miðlar jákvæðum skilaboðum um vináttu, fjölbreytileika og náttúruna, og við erum ótrúlega stolt af því að þessi saga úr íslenskum ævintýraheimi hafi nú fengið alþjóðlega viðurkenningu,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Tulipop Studios.

Um þáttaröðina

Ævintýri Tulipop byggir á hinu séríslenska ævintýraheimi Tulipop, sem er hugarfóstur Signýjar Kolbeinsdóttur, teiknara og vöruhönnuðar, sem stofnaði fyrirtækið Tulipop með Helgu Árnadóttur. Ævintýraheimurinn hefur notið mikilla vinsælda bæði hérlendis og erlendis í gegnum teiknimyndir, vörur, bækur og tónlist. Í þáttaröðinni fylgjast áhorfendur með vinunum Fredda, Búa, Gló, Maddý og Herra Barra sem takast á við fjölbreytt ævintýri á ævintýraeyjunni Tulipop. Þættirnir innihalda mikið af húmor, tónlist og jákvæðum boðskap sem höfðar jafnt til barna sem fullorðinna.

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.