23
.
July
2025

Stórstjörnur nota mælana frá Tymewear

Arnar Lárusson, stofnandi og hugmyndasmiður Tymewear búnaðarins. mbl.is/Birta Margrét

Arnar Lárusson, stofnandi Tymewear, var nýverið í viðtali hjá mbl.is þar sem hann segir m.a. að fyrirtækið sé á vendipunkti og hann búist við að strappinn verði á komandi árum að staðalbúnaði fyrir afreksíþróttafólk víða um heim og einnig þá sem almennt vilja bæta formið.  

Hugmyndin á bak við Tymewear strappann byggir á því að í stað þess að mæla púls, eins og hefðbundir strappar gera, sé öndunin mæld með mjög nákvæmum sílíkonmæli. Metur hann breytingu á flatarmáli eða tilfærslu á brjóstkassanum og þar með hversu mikið súrefni viðkomandi andar að sér. Til viðbótar sé öndunartíðnin mæld og þar með fæst heildarrúmmál öndunar yfir tíma. Upphaflega hugmyndin var í formi æfingarbols sem fólk klæddist en út frá prófunum hafi helsti lærdómurinn verið að fólk væri mjög spennt að nota nemann en bolurinn hafi verið aðalhindrunin og því færðu þau sig yfir í að þróa strappann.

Fyrsta útgáfa strappans var klár í fyrra og fóru þau strax í að kynna vöruna á ráðstefnum fyrir mögulegum áhugasömum kaupendum og fengu mjög góðar viðtökur. Meðal þeirra sem sýndu þessari nýjung áhuga var hjólaliðið Team Visma | Lease a bike en það er eitt af stærstu hjólaliðum heims með stórstjörnur eins og tvöfalda sigurvegara Frakklandshjólreiðanna, Jonas Vingegaard og Wout van Aert. Er liðið nú með samning við Tymewear um notkun fyrir alla keppendur liðsins, bæði í karla- og kvennaflokki. Þá vildi einnig Ólympíusamband Noregs nota þessa nýju mæla en Noregur hefur verið meðal fremstu landa í heimi þegar kemur að ofurúthaldsíþróttum, hvort sem það er í skíðagöngu eða þríþraut.

Arnar tekur þó fram í viðtalinu að í framtíðinni eigi hann von á að um 99% notanda verði ekki atvinnuíþróttamenn heldur fólk sem vilji koma sér í betra form og gera þá á sem skilvirkastan hátt.

Viðtalið í heild sinni má lesa hér.

Tymewear er í eignasafni Nýsköpunarsjóðsins Kríu og var fyrsta aðkoma sjóðsins að fyrirtækinu árið 2020.

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.