6
.
September
2021

Sæmundur ráðinn sjóðstjóri Kríu

Sæmundur K. Finnbogason

Sæmundur K. Finnbogason hefur verið ráðinn til Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Hann mun starfa sem sjóðstjóri Kríu, sem er nýr sprota- og nýsköpunarsjóður sem hefur það að markmiði að stuðla að uppbyggingu fjármögnunarumhverfis sprota-, tækni-, og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi.

Sæmundur hefur undanfarin sjö ár starfað sem forstöðumaður viðskiptaþróunar og almannatengsla hjá Sendiráði Kanada á Íslandi. Áður starfaði hann við verðbréfamiðlun og fyrirtækjaráðgjöf hjá Virðingu Verðbréfum hf. og sem sérfræðingur hjá embætti sérstaks saksóknara. Hann hefur lokið B.Sc. gráðu í
viðskiptafræði með áherslu á alþjóðaviðskipti og fjármál frá Háskólanum í Reykjavík og M.Sc. gráðu í auðlindastjórnun og stefnumótun fyrirtækja frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð.

Kría er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og heyrir undir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.


Hlutverk sjóðsins er að fjárfesta í sérhæfðum fjárfestingarsjóðum, svokölluðum vísisjóðum (e. venture capital funds), sem síðan fjárfesta í sprotafyrirtækjum. Sjóðnum er ætlað að efla fjárfestingarumhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi og er liður í stefnumótun stjórnvalda í málefnum nýsköpunar
og í samræmi við Nýsköpunarstefnu. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur umsjón með rekstri og umsýslu Kríu samkvæmt samningi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, formaður stjórnar Kríu:
„Það er ánægjulegt að fá Sæmund til starfa hjá Kríu. Reynsla hans og þekking mun nýtast í því mikilvæga hlutverki sem Kría gegnir í stuðningi við nýsköpunarumhverfið. Með sjóðnum er Nýsköpunarstefnu stjórnvalda fylgt eftir í verki með öflugri aðgerð sem mun hafa mikil jákvæð áhrif.“

Sæmundur K. Finnbogason, sjóðstjóri Kríu:
„Ég er spenntur fyrir því að takast á við þetta nýja og krefjandi starf og hlakka til að vinna með stjórn Kríu að uppbyggingu og markmiðum sjóðsins. Við höfum tækifæri til að efla nýsköpunarumhverfið á Íslandi til muna og fyrir okkur liggja mörg tækifæri til að koma íslenskri þekkingu og hugviti á framfæri, bæði hér á landi og erlendis.“

Heimasíða Kríu: – Kría (kriaventures.is)

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.