
Nýsköpunarsjóðurinn Kría (NSK) hefur opnað fyrir umsóknir í Heilsu Kríu. Heilsu Kría er fjárfestingaframtak þar sem tilgangurinn er að efla nýsköpun í heilbrigðisþjónustu á Íslandi með beinum fjárfestingum í sprotafyrirtækjum á hugmynda- og klakstigi.
Tilurð Heilsu Kríu má rekja til vinnustofu í aðdraganda Heilbrigðisþings sem menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið stóðu fyrir. Þar kom fram að nýsköpun í heilbrigðisþjónustu ætti erfitt uppdráttar, m.a. vegna skorts á fjárfestingum í verkefnum á frum- eða klakstigi. Framtakinu er ætlað brúa þetta bil í samvinnu við áhugasama fjárfesta.
Markmiðið með Heilsu Kríu er að fjölga tækifærum til nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu og styðja við frumkvöðla sem vinna að lausnum sem geta eflt gæði og skilvirkni íslenska heilbrigðiskerfisins öllum til góða.
Heilsu Kríu er ætlað að fjárfesta beint í sprotafyrirtækjum þar sem áherslan verður á fyrirtæki sem hafa þróun heilbrigðistengdra lausna við þekktum vandamálum að meginstarfsemi. Heilsu Kría beinir sjónum sínum að verkefnum sem tengjast heilbrigðisþjónustu, heilbrigðistækni, stafrænum lausnum, greiningartækni, líftækni og öðrum lausnum sem stuðlað geta að bættri meðferð sjúkdóma, skilvirkari þjónustu eða auknu öryggi sjúklinga og starfsfólks.
Með stuðningi menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins hefur Heilsu Kría til umráða 300 milljónir króna til fjárfestinga. Viðmiðunarfjárhæð einstakra fjárfestinga er um 50–70 milljónir króna en skilyrði er að jafnhátt eða hærra mótframlag berist frá öðrum fjárfestum. Sérstakt fagráð Heilsu Kríu mun fara yfir allar umsóknir sem berast í Heilsu Kríu en rafrænn kynningarfundur verður haldinn um framtakið þann 8. janúar næstkomandi.
Logi Már Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra:
„Með því að styðja markvisst við nýsköpun í heilbrigðisþjónustu skapast rými til þess að raunhæfar lausnir þróist áfram í að verða varanlegur hluti af sterkara og skilvirkara heilbrigðiskerfi. Hugvitið er lykilinn að framtíðinni og það er von mín að Heilsu Kría verði til þess að mikilvæg verkefni raungerist með þeim hætti að við finnum virkilega fyrir þeim.”
Allar nánari upplýsingar um Heilsu Kríu má finna á https://www.nyskopun.is/heilsu-kria