23
.
November
2022

Nýsköpunarsjóður fjárfestir í Horseday

Mynd frá vb.is: Marta Rut Ólafsdóttir, einn stofnenda HorseDay, Örn Viðar Skúlason fjárfestingastjóri NSA, Oddur Ólafsson, einn stofnenda og framkvæmdastjóra HorseDay, Ólafur H. Einarsson, einn stofnenda HorseDay, og Hrönn Greipsdóttir framkvæmdastjóri NSA.

Sprotafyrirtækið HorseDay hefur lokið 100 milljóna króna hlutafjáraukningu sem leidd var af Nýsköpunarsjóði með þátttöku nokkurra einkafjárfesta. Félagið mun í framhaldinu setja aukinn kraft í vöruþróun og markaðssetningu á smáforritinu HorseDay, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Fyrirtækið ætlar sér í fyrstu að ná til íslenska hestaheimsins hérlendis og erlendis og í framhaldinu verður þróun smáforritsins fyrir önnur hestakyn skoðuð. Í dag starfa sex starfsmenn hjá HorseDay ehf. en það er fyrirliggjandi að teymið muni stækka á næstunni.

Stafrænn snertiflötur fyrir íslenska hestinn

HorseDay vinnur að gerð samnefnds smáforrits sem er sérsniðið að þörfum hestafólks. Forritið býður upp á fjölbreytta möguleika sem auðvelda fólki utanumhald og markmiðssetningu um þjálfun, umhirðu og allt sem hestahaldið varðar.

Meðal þess sem HorseDay innleiðir er aukin yfirsýn yfir þjálfun með greiningu gangtegunda með aðstoð tauganets og skynjara símans. Þá getur notandinn einnig leitað í gagnagrunni WorldFengs, byggt prófíla söluhesta, tengst öðrum notendum og verið í samskiptum við þá.

HorseDay var stofnað árið 2020 af Oddi Ólafssyni, Mörtu Rut Ólafsdóttir og Ólafi H. Einarssyni en þau hafa reynslu af þróun og uppbyggingu hugbúnaðar og eru hestafólk með tengingar við hestamennsku á breiðum grunni.

HorseDay hefur hlotið styrki úr Tækniþróunarsjóði Rannís, Uppbyggingarsjóði Suðurlands og frá Stofnverndarsjóði íslenska hestsins.

Oddur Ólafsson, framkvæmdastjóri og stofnandi HorseDay:

„Aðkoma Nýsköpunarsjóðs og annarra fjárfesta sem koma inn í hluthafahóp HorseDay er gríðarlega mikilvæg á þessum tímapunkti. Við erum stolt af þeim árangri sem við höfum náð hingað til og erum spennt fyrir því að geta sett enn meiri kraft í vöruþróun og útbreiðslu HorseDay á næstu mánuðum. HorseDay er nú þegar notað víða um heim en um 800 manns nota smáforritið vikulega.”

Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs:

„Forritið sem HorseDay hefur hannað og er að þróa býður upp á möguleika sem ekki hafa áður sést meðal þeirra sem stunda hestamennsku. Við fyrstu sýn gæti virst sem hópur notenda væri þröngur en sú er ekki raunin því samfélagið utan um íslenska hestinn telur líklega yfir 300 þúsund manns víðsvegar um heiminn. Þá er einnig hægt að heimfæra forritið upp á aðrar hestategundir í framtíðinni. Hestamennskan er bæði holl hreyfing og umhverfisvæn og við erum spennt fyrir því að nú sé verið að færa hana inn í stafrænt umhverfi. Fjárfestingin fylgir stefnu Nýsköpunarsjóðs sem er að koma snemma inn í verkefni og draga með sér einkafjárfesta (englafjárfesta) eins og í tilviki HorseDay.”

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.