Nýsköpunarfyrirtækið Álvit hefur tryggt sér um fimmtíu milljóna króna sprotafjármögnun frá Nýsköpunarsjóðnum og hópi englafjárfesta, meðal annars frá Guðmundi Fertram, stofnanda Kerecis.
Fjármagnið sem félagið hefur núna fengið verður fyrst og fremst nýtt til þess að markaðsetja fyrstu vöru fyrirtækisins – umhverfisvænan kragasalla sem verndar skautgaffla í rafgreiningarkerum álvera, auk þess að undirbúa að sækja frekari vaxtarfjármögnun á komandi mánuðum.
Álvit var stofnað árið 2020 af frumkvöðlunum Sunnu Ólafsdóttur Wallevik, forstjóra félagsins, Dr. Sigrúnu Nönnu Karlsdóttur, framkvæmdastjóra vísinda- og rannsóknarsviðs, og Dr. Kristjáni Friðriki Alexanderssyni, framkvæmdastjóra vöruþróunar.
„Álvit er eitt þeirra félaga sem sóttu um fjármögnun í frumfjárfestingarátaki Nýsköpunarsjóðs þar sem krafist var mótframlags annarra fjárfesta. Það er ánægjulegt að finna áhuga fjárfesta á þessum félögum enda valin úr stórum hópi umsækjenda. Við hlökkum til að fylgjast með Álviti og framgangi þeirra,“ segir Hrönn Greipsdóttir, forstjóri Nýsköpunarsjóðsins Kríu
Álvit þróar umhverfisvænt bindiefni í nánu samstarfi við íslensku álverin sem og í samstarfi við alþjóðlega rafskautaframleiðendur og er eitt þeirra tíu fyrirtækja sem valin voru í eignasafn sjóðsins árið 2023 í kjölfar fjárfestingaátaks.