24
.
February
2023

Ný ásýnd Nýsköpunarsjóðs kynnt

Nýja vörurmerki Nýsköpunarsjóðs

Nýverið efndi Nýsköpunarsjóður til veislu með helstu aðilum úreignasafni sínu og stjórnsýslu. Tilefnið var að fagna upphafi afmælisársNýsköpunarsjóðsins en hann fagnar nú 25 ára starfsafmæli.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra nýsköpunar, bauð gesti velkomnaog fór meðal annars yfir mikilvægi nýsköpunar og þá þróun sem orðið hefur á öllum þessum tíma. Síðan tók Sigurður Hannesson, stjórnarformaður Nýsköpunarsjóðs, við en hann talaði m.a. um hvernig NSA er brúin sem liggur frá framúrskarandi hugmynd að félagi með tekjur sem skapar verðmæti fyrir íslenskt samfélag.

Á þessum 25 árum frá stofnun sjóðsins hafa orðið gríðarlegar breytingar á umhverfi nýsköpunar og þá sérstaklega aðgengi að fjármagni og viðhorfi til fjárfestinga í nýsköpun. Á síðustu fimm árum hafa sprottið upp vísissjóðir og englafjárfestar gert sig meira gildandi. Sú þróun er afar ánægjuleg sérstaklega í ljósi þess að þar með eykst fókus á fyrstu stig sprotanna. Þá er vert að nefna fjölbreytt úrval hraðla sem hafa verið uppspretta frábærra verkefna. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins ætlar ekki að láta sitt eftir liggja og hefur að undanförnu unnið að því að endurstilla ýmsa þætti í starfsemi sinni.  Um sjóðinn gilda lög svo það er ákveðinn rammi til staðar en starfsemin þarf að taka mið af þeim breytingum sem umhverfið hefur tekið.  

Þetta var einmitt fókusinn hjá Hrönn Greipsdóttir,framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs, sem tók svo við keflinu og sýndi viðstöddum hvernig ný ásýnd sjóðsins er nú. „Til að hefja nýja vegferð var ákveðið að lífga aðeins upp á útlitið og færa meira til þess að vera í takti við nýja tíma. Við höfum verið spennt að kynna þetta nýja útlit – bæði liti og vörumerki og loksins er komið að því.  Það er einkar ánægjulegt að geta gert það í þessum góða hópi í dag,“ sagði Hrönn. „Það má sjá ýmislegt út úr nýja logóinu en fyrstu hughrifin eiga að vera tréið með sprota sem vísa í allar áttir.  Guli liturinn vísar til hlýju, velgengi og umhyggju. Það má einnig sjá fyrir sér veg sem liggur að sólinni nú eða sólarupprás. Allt tengist þetta nýju upphafi – nýsköpun. Litapallettan er glaðleg en þó ekki of djörf kannski svolítið í takti við anda sjóðsins,“ bætti Hrönn við.

Á þeim 25 árum sem liðin eru frá því að sjóðurinn hóf starfsemi hefur hann komið að fjármögnun 200 félaga og fjárfest fyrir 25 milljarða uppreiknað á verðlagi dagsins í dag.  Mörg þessara félaga eru í dag til fyrirmyndar í íslensku atvinnulífi og ekki síður mikilvægt þá hafa þau dregið að sér og skapað vettvang fyrir sérfræðiþekkingu og frekari þróun og sum hver á heimsvísu.

Hér má sjá myndir frá veislunni sem haldin var á veitingastaðnum Héðinn.

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.