1
.
February
2024

Íslensk nýsköpun hlýtur alþjóðleg verðlaun

Mathieu og Adrien Skúlasynir taka á móti verðlaununum

Evolytes stærðfræðinámskerfið hlaut á dögunum hin virtu BETT verðlaun sem besta stafræna stærðfræðinámsefnið á grunnskólastigi, en BETT er stærsta menntatækniráðstefna í heimi og verðlaunin í raun eins og að vinna Óskarinn í þessum iðnaði. Verðlaunin eru því stórsigur fyrir íslenska menntatækni.

Umbreyta námi með tækni

Evolytes hefur skorið sig úr með því að samþætta tækni, sálfræði og kennslufræði og skapað með því námskerfi sem breytir því hvernig börn læra. Í námskerfinu fá nemendur einstaklingsmiðað námsefni, aðlögunarhæfni sem er nauðsynleg til að mæta fjölbreyttum þörfum nemenda.

Ævintýraheimur Evolytes hefur skapað einstakt lærdómsumhverfi sem nær til nemenda og gerir jafnvel þá neikvæðustu jákvæða fyrir stærðfræði. Þessi nálgun fangar ekki aðeins athygli nemenda heldur gerir hún æfinguna skemmtilegri og skilvirkari. Heimurinn nær svo vel til nemenda að nemendur hafa oftar en ekki beðið um eiginhandaáritun á bækurnar sínar þegar fyrirtækið kemur í skólaheimsóknir. 

Námskerfið valdeflir kennara líka með rauntíma gagnagreiningu. Kennarar fá með því einstaka innsýn í námsframvindu nemenda, sem gerir þeim kleift að aðlaga kennslu sína til að ná hámarks áhrifum fyrir hvern nemanda. Þessi gagnadrifna nálgun einfaldar námsmat, hagræðir námsferlinu og tryggir að kennarar séu vel í stakk búnir til að hjálpa öllum að skara fram úr.

Íslenskt hugverk í útrás

Evolytes námskerfið er 100% íslensk nýsköpun. Afurð áralangra þverfaglegra rannsókna við Háskólann í Reykjavík. Verkefnið lenti í þriðja sæti Gulleggsins 2017 (þá undir vinnunafninu Project Monsters) og hefur hlotið Fræ, Sprota og Vöxt frá Tækniþróunarsjóð. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins kom fyrst að fjármögnum Evolytes árið 2021. 

Evolytes námskerfið hefur fengið mjög jákvæðar viðtökur frá nemendum, kennurum og í raun skólakerfinu öllu. Þessi jákvæðu viðbrögð hér heima gegndu lykilhlutverki fyrir árangur fyrirtækisins á erlendri grundu. 

Námskerfið er nú í boði á níu tungumálum. Það hefur verið í notkun á Norðurlöndunum á síðustu árum en er jafnframt að vaxa á Indlandi og Suður-Ameríku. 

Nýsköpun í menntun mikilvæg

Mikilvægt er að velta fyrir sér framtíð menntunar. Vaxandi umhverfi menntatækni á alþjóðavísu er til merkis um hve mikilvæg nýsköpun er fyrir menntun. Aðgengi íslenskra kennara að góðum tólum er langtum minni en þekkist í nágrannalöndum okkar sem kemur beint niður á námsárangri nemenda. Eins og kom bersýnilega í ljós í síðustu PISA könnunum. 

Við verðum að tryggja kennurum aukið aðgengi að hágæða námsefni ef við viljum bæta námsárangur íslenskra nemenda og tryggja að skólakerfið geti undirbúið börnin okkar fyrir framtíðina.

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.