20
.
November
2025

Ísland setur mark sitt á Brussel-fund um kynjahalla í nýsköpun og fjárfestingum

Þann 4.nóvember sl. hélt Evrópuþingið viðburð þar sem kynntar voru niðurstöður umfangsmikillar rannsóknar á kynjahalla í fjárfestingum í Evrópu þar sem fjárfestingar voru skoðaðar frá bæði eftirspurnar og framboðshlið.  Fundurinn, sem haldinn var í tilefni af Kynjajafnréttisviku Evrópuþingsins, markaði formlega kynningu á Gender Gap in Investments – einu heildstæðasta verkefni sem unnið hefur verið á vettvangi ESB um stöðu kvenna í nýsköpun, fjárfestingum og djúptækni. Á fundinum var jafnframt kynntur nýr evrópskur gagnagrunnur, EU Gender Investment Dashboard, sem sameinar gögn um stofnendur, fjárfesta og flæði fjármagns á einum stað, með það að markmiði að gera rauntölur sýnilegri og stuðla með því að auknu gagnsæi í fjárfestingum á sviði nýsköpunar. 

Ísland átti sterka rödd á fundinum þar sem Hrönn Greipsdóttir, forstjóri Nýsköpunarsjóðsins Kríu, tók þátt í aðalpallborði viðburðarins. Hún lagði áherslu á mikilvægi gagnsæis, aðgengi upplýsinga og nýtingu þeirra.   Ísland hefur leitt listann “Global Gender Gap Index” í 16 ár þar sem jafnréttisstuðullinn er yfir 90% og er því og er fyrirmynd margra þjóða. Hrönn fjallaði um hvernig Ísland hefur náð þessum árangri í jafnréttismálum og hvernig það hefði ekki hvað síst verið fyrir fyrirmyndir eins og frú Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, sem breytingar raungerðust. Hún sagði jafnframt að þó svo að Ísland stæði framarlega í jafnréttismálum mætti aldrei slaka á og sagði t.d. að það væri verk að vinna í því að efla þátttöku kvenna í fjármálageiranum þar sem fjárfestingar fara enn að litlu leyti til kvenna og kvenfjárfestar eru of fáar en um 33% íslenskra sprotafjárfestinga fara til blandaðra teyma og 13–15% til teyma skipuðum eingöngu konum.

Fram kom að Ísland er eitt fárra landa þar sem fjárfestingasjóðir birta opinberlega kynjahlutföll – bæði í stjórnendateymum og hjá fyrirtækjum sem þeir fjárfesta í.

Að lokum hvatti Hrönn evrópska fjárfesta til að innleiða og leggja aukna áherslu á gagnsæi og tók fram að aðgengi að skýrum og hnitmiðuðum gögnum væri eitt öflugasta vopnið í jafnréttisbaráttunni.

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.