23
.
May
2024

Humble tryggir sér 40 milljóna fjár­mögnun

Andri Geir Arnarson, Steinn Arnar Kjartansson og Hlynur Rafn Guðmundsson, stofnendur Humble, ásamt Bala Kamallakharan.

Humble Software ehf, fyrirtæki sem sérhæfir sig í lausnum sem sporna við matarsóun fyrirtækja, tryggði sér á dögunum 40 milljón króna fjármögnun sem styðja á við frekari framþróun og vöxt fyrirtækisins. Humble er eitt af þeim tíu félögum sem Nýsköpunarsjóður valdi í fjárfestingarátaki sjóðsins á síðasta ári.

Humble var stofnað árið 2020 og einbeitir sér að því að bjóða upp á lausnir sem leggja áherslu á að minnka matarsóun fyrirtækja. Fyrirtækið rekur m.a. markaðstorg undir merkjunum Humble sem er fáanlegt bæði á App Store og í Google Play Store.

„Markaðstorgið hefur farið mjög vel af stað hjá okkur, almennt hafa notendur tekið mjög vel í lausnina og sjáum við að fólk kemur aftur og aftur. Sem er gott merki um að við séum að gera eitthvað rétt. Þessi fjármögnun er fyrst og fremst gríðarleg viðurkenning fyrir okkur sem lítið fyrirtæki, það eru greinilega fleiri en við í Humble sem sjá tækifærin sem liggja í því að leysa þetta vandamál sem matarsóun er. Það er enginn sem leikur sér að því að henda mat, en það vantar einfaldlega lausnir fyrir fyrirtæki til að koma þessum viðkvæmu verðmætum fljótt og örugglega í verð. Við byrjuðum á því að þróa markaðstorgið fyrir veitingastaði og minni matsölustaði, við áttuðum okkur svo á því að það finnast engar lausnir fyrir heildsölur og framleiðendur ofar í virðiskeðjunni. Við erum því hægt og rólega að aðlaga markaðstorgið að þessum aðilum,” segir Andri Geir, einn stofnenda og framkvæmdastjóri Humble.

Fjárfestinguna ætla Humble að nota til að efla lausnina, bæt markaðsinnviði félagsins og þannig aðstoða við að greiða leið lausna Humble inn á alla staði í virðiskeðju matvæla á Íslandi.

„Við erum mjög ánægð með þátttöku sjóðsins í þróun Humble. Fjárfestingin er í samræmi við stefnu Nýsköpunarsjóðs um að styðja sprotafyrirtæki snemma, tengja þau við einkafjárfesta og stuðla að frekari vexti þeirra. Það er sérstaklega ánægjulegt að styðja verkefni sem minnka matarsóun, auka nýtingu matvæla og styðja umhverfismarkmið. Verkefnið er leitt af öflugum teymi sem býr yfir verðmætri sérfræðiþekkingu. Við erum viss um að smáforritið muni hjálpa fyrirtækjum að minnka matarsóun og hlökkum til samstarfsins með öflugu teymi Humble,“ segir Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs.

Nýsköpunarsjóður óskar Humble til hamingju með fjármögnunina.

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.