Nýsköpunarsjóðurinn Kría (NSK) stendur fyrir fjárfestingaátaki sem miðar að því að fjárfesta í sprotafyrirtækjum snemma á þróunarferli þeirra. Viðskiptahugmyndin sem félagið byggir á þarf að vera vænleg til vaxtar og útflutnings, félagið íslenskt og með starfsemi á Íslandi. Þá er það til framdráttar að lykilteymi félagsins skipi fjölbreyttur hópur með bakgrunn, reynslu og þekkingu sem nýtist vel við framgang félagsins. Félög af landsbyggðinni eru sérstaklega hvött til að sækja um fjárfestingu.
Hægt er að sækja um í fjárfestingaátakinu til og með 20. október en markmið átaksins er að flýta mótunarskeiði nýsköpunarfélaga og efla stjórnarhætti þeirra, laða aðra fjárfesta að, auka englafjárfestingar, efla hugvitsgreinar og þekkingariðnað sem fjórðu stoðina í íslensku atvinnulífi alls staðar á landinu.
Stefnt er að því að fjárfesta í 10-12 félögum og verður fjárfesting í hverju félagi á bilinu 20-30 milljónir króna. Ófrávíkjanlegt skilyrði er mótframlagsfjárfesting frá öðrum fjárfestum fyrir að lágmarki sömu fjárhæð og NSK fjárfestir.