1
.
July
2025

Ég reyni nálgast allt sem ég geri með opnum hug og jákvæðni! Viðtal við Odd hjá Horseday

Oddur með sonum sínum

Oddur Ólafsson er framkvæmdastjóri HorseDay sem hann stofnaði ásamt Mörtu Rut systur sinni og föður þeirra Ólafi H. Einarssyni en þau eru öll mikið hestafólk. HorseDay þróar app sem heldur utan um allt sem viðkemur íslenska hestinum, þar á meðal þjálfun. Í stuttu máli má segja að HorseDay er Strava fyrir hestaheiminn.

Oddur er með BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og mastersgráðu í stjórnun frá viðskiptaháskólanum EADA í Barcelóna á Spáni.

Við hjá Nýsköpunarsjóði lögðum fyrir honum nokkrar laufléttar spurningar til að kynnast honum betur.

Hvaða áhugamál hefurðu?

„Ég er mikill áhugamaður um íþróttir, aðallega körfubolta, fótbolta og auðvitað hestamennsku.“

Hvenær komstu fyrst að nýsköpun og af hverju?

„Ég kom svona óbeint að nýsköpun þegar ég starfaði hjá Íslandsbanka en þá tengdist ég aðeins nýsköpunarfyrirtækjum í fjártækni og fékk smá smjörþefinn af þeirri orku sem býr inni í þannig fyrirtækjum“

Ef þú værir ekki framkvæmdastjóri HorseDay hvað myndirðu vilja gera í lífinu?

„Ætli ég væri ekki bara í einhverju öðru nýsköpunarfyrirtæki. Það hefur líka lengi blundað í mér að verða körfuboltaþjálfari. En mín dýrmætasta reynsla í lífinu er þegar ég flutti til Bandaríkjanna 17 ára með þann draum að verða körfuboltamaður að atvinnu. Að flytja í burtu frá öllu sínu baklandi frá 17 til 20 ára aldurs til að elta einhvern draum mótaði mig heilmikið og gaf mér sjálfstraust sem hefur nýst mér alla tíð síðan.“

Ertu með einhverja sturlaða staðreynd um sjálfan þig?

„Þegar ég var 14 ára fór ég til Noregs til að vinna á hestabúgarði og undirbúa mig fyrir Norðurlandamót í hestaíþróttum sem var haldið í Danmörk, sumarið 2006. Þar keppti ég svo og endaði í 2. sæti í unglingaflokki.“

Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir?

„Að hreyfa mig og brasa heima með sonum mínum.“

En það leiðinlegasta eða mest óþolandi?

„Mér finnst ekki gaman að þvo þvott og versla föt. Held að Guðrún unnusta mín geti alveg staðfest það…“

Ertu með eitthvað Mottó?

„Já, ég er óbeint með Mottó. Ég reyni nálgast allt sem ég geri með opnum hug og jákvæðni. Segja alltaf “já” frekar en “nei” í upphafi samtals ef svo ber undir. Í kjölfarið gæti vel verið að það komi svo stórt EN, en fyrstu viðbrögð skipta gríðarlega miklu máli.“

Ef þú gætir sagt eitthvað við þig sem barn hvað myndirðu vilja segja því?

„Ekki flýta þér um of ungi maður, reyndu að njóta augnabliksins því þú veist aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér.“

Um Horseday

HorseDay var stofnað árið 2020 og kom inn í eignasafn Nýsköpunarsjóðsins Kríu árið 2022. HorseDay vinnur að gerð samnefnds smáforrits sem er sérsniðið að þörfum hestafólks. Forritið býður upp á fjölbreytta möguleika sem auðvelda fólki utanumhald og markmiðssetningu um þjálfun, umhirðu og allt sem hestahaldið varðar. Meðal þess sem HorseDay innleiðir er aukin yfirsýn yfir þjálfun með greiningu gangtegunda með aðstoð tauganets og skynjara símans. Þá getur notandinn einnig fylgst með lifandi niðurstöðum úr keppnum í íslenska hestaheiminum, leitað að hrossum, byggt prófíla söluhesta, tengst öðrum notendum og verið í samskiptum við þá.

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.