
Í nýjasta Bændablaði er viðtal við Helgu Dögg Flosadóttur, framkvæmdastjóra Atmonia.
Í greininni kemur fram að nýsköpunarfyrirtækið Atmonia náði nýlega mikilvægum áfanga á vegferð sinni að því að þróa tækjabúnað til umhverfisvænnar framleiðslu á köfnunarefnisáburði úr lofti, vatni og rafmagni með rafgreiningu. Í fyrsta skipti hefur nú tekist að framleiða ammoníak á tilraunastofu Atmonia með þessum hætti í nýju kerfi.
Atmonia var stofnað árið 2016 og kom inn í eignasafn Nýsköpunarsjóðsins árið 2022. Frá stofnun hefur vandasamasti hluti þessa metnaðarfulla verkefnis, sem er einstakt á heimsvísu, verið þróun á sérstökum „hvata“ sem umbreytir efniviðnum andrúmslofti og vatni yfir í ammoníak – með rafmagni í gegnum rafgreiningu. „Hvötun“ er þá þegar eitthvert efni hraðar efnahvarfi.
Fyrstu niðurstöður Atmonia um slíka efnahvötun birtust fyrst í ritrýndum tímaritum á árinu 2021 og nú hefur hún raungerst í tilraunum. Grunnhugmyndin snýst um að formbreyta niturgasi, sem myndar um 80 prósent af andrúmsloftinu, í fast og nýtanlegt form köfnunarefnis ─ eða ammoníak. Haber–Bosch tæknin hefur verið nýtt til áburðarframleiðslu í gegnum slíkt ferli í langan tíma, meðal annars hér á Íslandi í áburðarverksmiðjunni í Gufunesi, en sú tækni er óumhverfisvæn enda orkufrek og með stórt kolefnisspor. Áburðarframleiðsla Atmonia verður kolefnishlutlaus.
Helga Dögg Flosadóttir, forstjóri Atmonia og einn af stofnendum félagsins, segir að um mjög stóran áfanga sé að ræða. Unnið hafi verið mjög markvisst að honum á undanförnu ári.
„Þetta kerfi sem við erum komin með er lítil útgáfa af kerfinu sem við ætlum að skala upp í að lokum. Í sumar, þegar við vorum búin að bæta alla þættina, þá keyrðum við tilraun með samsætumerkingu sem gefur okkur tækifæri til þess að greina muninn á ammóníaki sem verður til við að hvatinn brotnar niður og ammóníaki sem verður til við það að niturgas er klofið. Við viljum auðvitað búa til ammóníak úr niturgasi en ekki úr hvata. Þessi tilraun sýndi fram á að í þessu betrumbætta kerfi erum við að búa til ammóníak úr niturgasi með hvarfgangi sem kallast „Mars-van Krevelen“. Þessi niðurstaða gerir okkur kleyft að fara á næstu skref, þar sem við fyrst ætlum að besta orkunýtni kerfisins og svo ætlum við að skala upp. Við sjáum fram á að þurfa um fimm ár til þess að geta framleitt fyrsta kerfið í fullri stærð, en sú stærð ætti að geta framleitt um 150 tonn af ammóníaki á ári.“