Þórhildur Edda Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Sweeply, hefur verið viðloðin nýsköpun frá því árið 2018 en þá stofnaði hún sitt fyrsta fyrirtæki Parallel Ráðgjöf. Þórhildur er með B.Sc. í rekstrarverkfræði og M.Sc. í framleiðsluverkfræði og tók við framkvæmdastjórastöðu Sweeply í byrjun árs 2024. Sweeply hjálpar hótelum og gististöðum að einfalda daglegan rekstur með tæknilausn sem heldur utan um öll verk dagsins, allt frá þrifum og viðhaldi yfir í samskipti og rauntímayfirsýn
Við hjá Nýsköpunarsjóði lögðum fyrir Þórhildi nokkrar laufléttar spurningar til að kynnast henni betur.
Hvenær komstu fyrst að nýsköpun og af hverju?
„Ég stofnaði mitt fyrsta fyrirtæki vorið 2018, með óbilandi trú á að byggja eitthvað upp og breyta heiminum með stafrænni tækni.“
Hvað varstu að gera áður en þú komst inn í Sweeply?
„Ég starfaði sem framkvæmdastjóri Júní Digital og þar áður vann ég hjá Arion banka í stafrænni þróun.“
Hvaða reynslu nýtir þú mest í því starfi sem þú gegnir í dag?
„Að geta tengt saman fólk, tækni og flókna ferla, og einfalda þá niður í eitthvað sem virkar í alvöru heimi.“
Ef þú værir ekki framkvæmdastjóri Sweeply hvað myndirðu vilja gera í lífinu?
„Ég væri eflaust í einhverri annarri nýsköpun, ég á svakalega auðvelt með að fá áhuga á hlutum og sé fegurðina í breytingum.“
Hvaða áhugamál hefurðu?
„Ég elska að eyða frítíma mínum í það sem hvílir hugann, hvort sem það er í göngu, á skíðum eða í veiði, svo er ég líka að reyna að fá áhuga á golfi.“
Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir?
„Að skapa, hvort sem það er að þróa vöru, byggja upp teymi eða skipuleggja næsta ævintýri með fjölskyldu og vinum. Það gefur mér orku að sjá hugmyndir verða að veruleika.“
En það leiðinlegasta eða mest óþolandi?
„Brjóta saman þvott, enda verkefni sem klárast aldrei.“
Ertu með Mottó? – hvað er það og af hverju ef svo ber undir?
„Aldrei segja nei við tækifærum og ég reyni alltaf að vera ekki of upptekin – því það að vera „rosalega busy“ er bara hugarástand.“
Ef þú gætir sagt eitthvað við þig sem barn hvað myndirðu vilja segja því?
„Ekki flýta þér svona að verða fullorðin, það eru alveg nógu mörg fullorðinsár.“
Sweeply þróar hugbúnaðarlausn sem sjálfvirknivæðir dagleg verkefni hjá starfsfólki hótela- og gististaða. Í lausninni skilgreina stjórnendur hvaða verkefni þarf að vinna og síðan framreiðir lausnin réttu verkefnin daglega, vikulega, mánaðarlega eða árlega. Enn fremur er hægt að halda utan um tilfallandi verk sem upp koma t.d. grípa vandamál, afgreiða beiðnir frá gestum og safna viðhaldsmálum. Sweeply var stofnað árið 2019 og var fyrsta aðkoma sjóðsins að fyrirtækinu árið 2020.