17
.
December
2021

450 milljóna króna fjárfesting í þróun og markaðssókn PayAnalytics

Á myndinni má sjá: Sigurjón Pálsson, Guðrún Þorgeirsdóttir og Margrét Vilborg Bjarnadóttir, þrír af stofnendum PayAnalytics, og Stefanía G. Halldórsdóttir framkvæmdastjóri Eyris Vaxtar, Huld Magnúsdóttir og Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri og fjármálastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.

PayAnalytics mun tvöfalda þróunarteymi sitt og byggja upp alþjóðlegt sölu- og markaðsteymi til að mæta mikilli alþjóðlegri eftirspurn. Stækkunin kemur í kjölfar 450 milljóna króna fjárfestingar frá Eyri Vexti og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins.

Hugbúnaðarlausn PayAnalytics er eftirsótt á heimsvísu þar sem hún auðveldar fyrirtækjum og stofnunum að draga úr eða útrýma launabili. Mannauðsstjórar, eða ráðgjafar þeirra, hlaða gögnum vinnustaðarins inn í lausnina, sjá hvar vandamálin liggja og fá tillögur um hvernig loka má launabilinu á sanngjarnan hátt. Hugbúnaðurinn styður í framhaldinu við góða ákvarðanatöku til að halda launabili lokuðu.

PayAnalytics er nú þegar notað í 43 löndum í 6 heimsálfum. Fyrirtæki sem nota hugbúnaðinn eru í öllum atvinnugreinum og með starfsmannafjölda allt frá 30 manns upp í vel yfir 100 þúsund manns.

Margrét Vilborg Bjarnadóttir, stofnandi PayAnalytics:

„Fram undan eru spennandi tímar. PayAnalytics er með leiðandi lausn á okkar markaði og við ætlum að halda þeirri stöðu. Á næstu mánuðum ráðum við fólk í hugbúnaðarþróun, hönnun, sölu og markaðsstarf. Við höfum undirbúið okkur vel fyrir þennan tímapunkt þar sem fyrirtækið mun margfaldast á stuttum tíma. Þróunarumhverfið okkar byggir á nýjustu tækni og skjölun og ferlar hjálpa nýju starfsfólki að komast hratt inn í málin. Höfuðstöðvar PayAnalytics eru í Grósku, en starfsmenn eru hér, á Spáni, í Svíþjóð, Þýskalandi og í Bandaríkjunum. Teymi viðskipta- og hugbúnaðarþróunar vinna náið saman, sem skýrir stóran hluta þess árangurs sem við höfum náð. Tækniþróunarsjóður hjálpaði okkur af stað og á þessum tímapunkti getum við ekki hugsað okkur betri fjárfesta en Eyri og Nýsköpunarsjóð.“

Ábyrgar fjárfestingar

Eyrir Vöxtur er ESG sjóður í stýringu hjá Eyrir Venture Management. Eyrir Vöxtur fjárfestir í nýsköpunarfyrirtækjum sem komin eru af klakstigi og horfa til þess að vaxa hratt alþjóðlega. Stefna sjóðsins er að fjárfesta í fyrirtækjum sem hafa jákvæð áhrif á samfélag og umhverfi. Hann vinnur því eftir skilgreiningum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar.

Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Eyris Vaxtar:

„Við erum afar stolt af því að geta fjárfest í fyrirtæki eins og PayAnalytics og teljum mikil tækifæri felast í aukinni áherslu á sjálfbærni og jafnrétti. Mörg fyrirtæki eru í umbótaverkefnum sem snúa að jafnrétti og PayAnalytics býður upp á lausnir sem gera fyrirtækjum kleift að taka nauðsynleg skref í átt að jafnrétti. Mikill vöxtur er fram undan og við spennt að taka þátt í þeirri vegferð.“

Útflutningur á jafnrétti

Hlutverk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingum í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Í eignasafni sjóðsins eru nú 25 fyrirtæki og hefur sjóðurinn fjárfest í yfir 160 fyrirtækjum á síðustu 20 árum.

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins:

„Þegar Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjárfesti í PayAnalytics í janúar 2020 var lausnin vinsæl hér en var enn ekki notuð utan Íslands. Mat okkar þá var að PayAnalytics hefði þróað lausn sem skaraði fram úr á heimsvísu og það reyndist rétt. Með þessari fjárfestingu styðjum við áfram við frekari vöxt PayAnalytics og þar með við útflutning á íslenskri þekkingu og þeim jafnréttisgildum sem hér hafa verið byggð upp við góðan orðstír.“

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.