15
.
September
2025

Nýsköpunarsjóðurinn Kría opnar fyrir umsóknir í nýtt fjárfestingaátak

Nýsköpunarsjóðurinn Kría (NSK) hefur opnað fyrir umsóknir í nýtt fjárfestingaátak sem miðar að því að fjárfesta í sprotafyrirtækjum snemma á þróunarferli þeirra. Viðskiptahugmyndin sem félagið byggir á þarf að vera vænleg til vaxtar og útflutnings, félagið íslenskt og með starfsemi á Íslandi. Þá er það til framdráttar að lykilteymi félagsins skipi fjölbreyttur hópur með bakgrunn, reynslu og þekkingu sem nýtist vel við framgang félagsins. Félög af landsbyggðinni eru sérstaklega hvött til að sækja um fjárfestingu.  

Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðsins Kríu:

„Fjárfestingar á frumstigi (pre-seed) hafa átt undir högg að sækja og hefur NSK fundið fyrir mikilli eftirspurn enda veruleg gróska á þessu stigi nýsköpunar. Á síðasta ári voru fjárfestingar á frumstigi með minnsta móti á meðan metþátttaka var í viðskiptahröðlum og styrkumsóknum til Tækniþróunarsjóðs. Til að tryggja  fjölbreytta atvinnustarfsemi er mikilvægt  að hér verði til öflug nýsköpunarfyrirtæki og það gerist ekki nema þau hafi aðgang að fjárfestum. Eitt af hlutverkum NSK er að byggja brú yfir til fjárfesta, bæði englafjárfesta og sjóða.  Með átakinu mun NSK fjárfesta í félögum með kröfu um að á móti komi að lágmarki jafnhátt mótframlag frá öðrum  fjárfestum og þannig efla vitund fjárfestaumhverfisins fyrir frumstigsfjárfestingum (pre-seed). Átakið mun því skila að lágmarki tvöfaldri þeirri fjárfestingu sem sjóðurinn leggur til.”  

Umgjörð og markmið átaksins  

Markmið átaksins er að flýta mótunarskeiði nýsköpunarfélaga og efla stjórnarhætti þeirra, laða  aðra fjárfesta að, auka englafjárfestingar, efla hugvitsgreinar og þekkingariðnað sem fjórðu stoðina í íslensku atvinnulífi alls staðar á landinu.

Stefnt er að því að fjárfesta í 10-12 félögum og verður fjárfesting í hverju félagi á bilinu 20-30 milljónir króna. Ófrávíkjanlegt skilyrði er mótframlagsfjárfesting frá öðrum fjárfestum fyrir að lágmarki sömu fjárhæð og NSK fjárfestir.

Nánari upplýsingar og umsóknir    

Ólíkt hefðbundnum fjárfestingum Nýsköpunarsjóðsins Kríu verður í þessu átaki sérstakt umsóknarferli og þurfa félög að sækja um fyrir 20. október nk. Allar nánari upplýsingar um átakið og umsóknarferlið má finna á www.nyskopun.is/atak.

Kynningarfundir um fjárfestingarátakið verða haldnir á Akureyri, í Reykjavík og með rafrænum hætti. Fyrsti kynningarfundurinn fer fram hjá DriftEA á Akureyri þann 25. september kl. 12:00. Næsti fundur verður haldinn í Fenjamýri í Grósku í Reykjavík þann 26. september kl. 13:00. Að auki verður haldinn rafrænn fundur þann 28. september sem og rafrænn fundur fyrir enskumælandi þann 1. október. Allar nánari upplýsingar um viðburðina má finna hér.  

Share news
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.