23
.
September
2025

Viðtal við Hrönn Greipsdóttur í Morgunblaðinu

Hrönn Greipsdóttir viðtal í Morgunblaðinu

Morgunblaðið birti í dag viðtal við Hrönn Greipsdóttur, forstjóra Nýsköpunarsjóðsins Kríu (NSK) þar sem farið er yfir fjárfestingaátak sem var hrint af stað nýverið.

Vilja virkja fjárfesta til þátttöku

- NSK hefur hrint af stað fjárfestingarátaki fyrir sprota

Öll nýsköpun byrjar einhvers staðar og stigið frá hugmynd fram að því að fjárfestar geta skoðað tækifærið eða verkefnið er oft erfiðasti hjallinn í ferlinu. Þetta segir Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri nýsköpunarsjóðsins Kríu (NSK), í samtali við Morgunblaðið.

NSK hefur nú opnað fyrir umsóknir í nýtt fjárfestingarátak sem miðar að því að styðja sprotafyrirtæki snemma á þróunarferli þeirra. Samkvæmt tilkynningu frá sjóðnum verður fjárfest í félögum sem byggja á viðskiptahugmyndum sem eru vænlegar til vaxtar og útflutnings, en jafnframt þarf félagið að vera íslenskt og með starfsemi á Íslandi.

Stefnt er að því að fjárfesta í 10-12 félögum og verður fjárfesting í hverju þeirra á bilinu 20-30 milljónir króna. Ófrávíkjanlegt skilyrði er að mótframlagsfjárfesting frá öðrum fjárfestum nemi að lágmarki sömu fjárhæð og NSK leggur fram.

Sárt að selja í félögum

Hrönn segir að með þessu sé markmiðið ekki aðeins að veita sprotum byr undir báða vængi heldur einnig að virkja einkafjárfesta til þátttöku.

„Eitt meginskilyrðið fyrir fjárfestingu er að aðrir fjárfestar komi með samsvarandi upphæð á móti. Við hvetjum englafjárfesta og sjóði til að koma með okkur í þetta ferðalag.“

Að sögn Hrannar gekk síðasta fjárfestingarátak vel. Þá sóttu 73 félög um og níu fengu fjármögnun. Heildarfjárfesting vegna þess átaks nam um 600 milljónum króna þegar mótframlag einkafjárfesta var tekið með. Hún segir það sýna hvernig margföldunaráhrifin skapast þegar opinber stuðningur laðar að einkafjármagn. Þegar spurt er um árangur af fjár

festingum sjóðsins segir Hrönn það koma fram þegar sjóðurinn selur sig út úr félögum sem fjárfest hefur verið í.

„Það er markmið sjóðsins að félög stoppi ekki of lengi í eignasafninu og þegar félög hafa náð ákveðnum þroska að selja til annarra fjárfesta. Við sölu er svo hægt að setja verðmiða á það hvernig félaginu hefur vegnað. En það er ekki bara arðsemin sem skiptir máli heldur er það ekki síður árangur á markaði, vöxtur, störf sem skapast og bara einfaldlega þegar hugvitið nær að springa út, en arðsemi fjárfestingarinnar er vissulega sá mælikvarði sem ætti að ná utan um velgengnina.“

Hrönn nefnir dæmi um vel heppnaðar fjárfestingar undanfarinna ára, s.s. Pay Analytic og Kaptio, sem eru nýjustu sölur sjóðsins. Hún viðurkennir þó að það sé alltaf sárt að sjá góð félög seld, en leggur áherslu á að það sé hluti af eðli starfseminnar.

„Fjármunirnir fara strax í vinnu aftur, til að fjárfesta í nýjum félögum og gefa þeim tækifæri,“ segir Hrönn.

Um síðustu áramót sameinuðust Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Kría í nýjan sjóð sem hefur mun stærra verksvið þar sem bæði er fjárfest í sjóðum og beint í sprotafyrirtækjum. Eignasafnið er öflugt og sjóðurinn er jafnframt hluthafi í fjórum vísisjóðum. Áherslan í nýja átakinu er ekki á tilteknar atvinnugreinar heldur verður fjárfestingum dreift á mismunandi verkefni. Hins vegar sé í undirbúningi sérstakt átak með sérhæfðari fókus.

„Það er svo frábært að sjá hversu mikil gróska er í nýsköpun á Íslandi, sem sést m.a. á þátttöku í viðskiptahröðlum KLAK sem hefur aldrei verið meiri. Ef við ætlum að virkja þennan kraft þá verður að vera fyrir hendi öflugur stuðningur frá ríkinu í fjölbreyttu formi. Fjárfesting í nýsköpun er fjárfesting til framtíðar, fjárfesting í breiðri þekkingu og fjölbreyttara atvinnulífi sem margborgar sig,“ segir Hrönn að lokum

Share news
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.