2
.
May
2024

Nýsköpunarsjóður skilar 126,5 milljón króna hagnaði á tuttugu og fimm ára afmælisárinu

Nýverið hélt Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins ársfund sinn þar sem kynntar voru rekstrarniðurstöður síðasta árs 2023 sem var tuttugusta og fimmta starfsár sjóðsins. Hagnaður ársins var 126,5 milljón króna en sjóðurinn er sígrænn og þarf því að ná fram eignasölu til að skila hagnaði. Hagnaður ársins er að langstærstu leyti kominn frá sölu á félaginu Pay Analytics sem var selt til svissneska félagsins Beqom sem sérhæfir sig í hugbúnaðarlausnum á mannauðssviði. Nýsköpunarsjóður fékk greitt fyrir sinn hlut með reiðufé og hlutabréfum í yfirtökufélaginu.  

„Með sígrænu fyrirkomulagi þarf Nýsköpunarsjóður líkt og sprotafyrirtæki að tryggja sér rekstrarfé til komandi mánaða sem og fjármagns til áframhaldandi fjárfestinga með sölu úr eignasafni sínu,“ segir Hrönn Greipsdóttir framkvæmdastjóri sjóðsins. „Það er einkar ánægjulegt að sjóðurinn skili svo góðri afkomu á sínu 25. starfsári og tryggi þar með áframhaldandi fjárfestingar í nýsköpun en frá upphafi hefur sjóðurinn komið að um 200 fjárfestingum fyrir um 25 milljarða reiknað á verðlagi dagsins í dag. Nýsköpunarsjóður hefur í aldarfjórðung verið ein mikilvægasta stoðin í stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki landsins sem hafa heldur betur sannað gildi sitt fyrir íslenskt samfélag,“ bætir Hrönn við.

Sjóðurinn stóð á árinu fyrir sérstöku fjárfestingaátaki í félögum sem eru á frumstigi en þar er alla jafna erfitt að finna fjármagn. Eitt meginskilyrðið fyrir fjárfestingu sjóðsins var að fá aðra fjárfesta til að koma með að lágmarki sömu fjárhæð. 73 félög sóttu um átakinu sem er til marks um að hér sé um markaðsbrest að ræða. 10 félög voru valin af sérstakri valnefnd skipaðri sérfræðingum í nýsköpun og mun átakið skila alls nærri 500 miljjón króna fjárfestingu inn í nýsköpunarumhverfið og vonandi framtíðarfjárfestingakostum fyrir stærri fjárfesta.  

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um Nýsköpunarsjóðinn Kríu sem ætlað er að taka við hlutverkum, eignum og skuldbindingum Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og sjóðasjóðsins Kríu. Hinum nýja sjóði er ætlað að koma fram með enn meiri slagkrafti og bæði fjölga og efla fjármögnunarmöguleika nýsköpunarfyrirtækja. Árið 2024 er því að öllum líkindum síðasta árið sem Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er starfræktur í núverandi mynd.  

Ásta Dís Óladóttir, stjórnarformaður Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sagði meðal annars í ávarpi sínu „Verði frumvarpið samþykkt, óska ég þess að nýr sjóður haldi áfram því mikilvæga hlutverki sem Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur gegnt í yfir 25 ár, að efla íslenskt atvinnulíf, hlúa að sprotafyrirtækjum með fjármagni, þekkingu og reynslu. Afar mikilvægt er að nýr sjóður muni halda áfram að skapa fleiri störf og auka útflutningsverðmæti þjóðarinnar.“

Ársskýrslu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins má finna hér

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.